Vefur Vigdísar Finnbogadóttur

Athygli vakti um gjörvallan heim þegar kona var í fyrsta sinn kjörin leiðtogi þjóðar sinnar í lýðræðislegri kosningu. Óhætt er að segja að sögulegt kjör Vigdísar Finnbogadóttur 29. júní 1980 og farsælt starf hennar jafnt heima sem heiman hafi reynst ein besta landkynning sem íslenska þjóðin hefur fengið síðan lýðveldi var stofnað 17. júní 1944. Á sextán ára forsetaferli tók Vigdís ekki aðeins á móti þjóðhöfðingjum og öðrum erlendum leiðtogum á Bessastöðum heldur líka mörgum yngri og eldri Íslendingum sem eru minnisstæðir fundir með forsetanum.

Um www.vigdis.is

Stjórnvöld áttu frumkvæði að smíði þessa vefs, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra fól Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum að setja upp heimasíðu með upplýsingum um störf og hugðarefni Vigdísar. Stofnunin mun hafa umsjón með vefnum og verður hann hýstur á heimasvæði Háskóla Íslands. Allar góðar ábendingar og upplýsingar sem gagnast geta vefnum óskast sendar á netfangið info@vigdis.is.Vigdís